Í framhaldi af málþinginu Andvarinn í himinsfari -180 ára afmæli veðurmælinga Árna Thorlaciusar, mun opna sýningin Vendipunktar/Tipping points í Byggðasafni Snæfellinga og Hnappdæla.
Loftslags vendipunktar (e. climate tipping points) hafa talsvert verið í umræðunni í tengslum við yfirstandandi loftslagsbreytingar af mannavöldum. Í grunninn má segja að Vendipunktur eigi við um það ferli sem á sér stað þegar röð smærri breytinga innan ákveðins kerfis verða nægilega veigamiklar til þess að valda stærri og varanlegri breytingum á því kerfi. Jörðin sjálf er gott dæmi um slíkt kerfi þar sem allir þættir hennar eru samtengdir - og við meðtalin - á einn eða annan hátt.
Í gegnum jarðsöguna hefur jörðin farið í gegnum fjölmarga vendipunkta á sinni þróunarleið og eru þeir því mikilvægir sem slíkir. Óhætt er að segja að hún muni áfram lifa þá vendipunkta sem vofa yfir okkur um þessar mundir þó annað eigi kannski við um mannkynið sjálft. Sjónarhornið skiptir því sköpum í að skilja núverandi ástand - og eins og með allt í þessari veröld er sjónarhornið aldrei bara eitt.
Kallað var eftir verkum listafólks undir þemanu Vendipunktar til þess að miðla bæði hugtakinu ásamt mikilvægi breytinga, þó afleiðingarnar geti verið mismunandi, með það að markmiði að dýpka innsýn inn í þessa ferla og skapa samtal milli lista, vísinda og samfélagsins. Listafólki var gefin frjálsa túlkun á þessu hugtaki án þess að hlekkja það við fyrirfram ákveðin kerfi.
Listamenn sem eiga verk á sýningunni Vendipunktar:
Anna Jóa
Deepa R. lyengar
Einar Falur Ingólfsson
Gudrita Lape
Halldór Kristjánsson
Hjördís Gréta Guðmundsdóttir
Íris María Leifsdóttir, Antonía Bergþórsdóttir, Alberta Parnuuna, Vikram Pradhan
Karí Ósk Grétudóttir
Þorgerður Jörundsdóttir
Þorgerður Ólafsdóttir
Sýningastjóri: Alda Rose Cartwright, verkefnastjóri fræðslu hjá Listasafni Árnesinga.
Verkefnstjóri: Hera Guðlaugsdóttur, jarðvísindamaður og veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands.
Sýningin opnar laugardaginn 11. október kl. 16:00.
Öll hjartanlega velkomin, léttar veitingar í boði.
Verkefnið er stutt af Safnaráði, Uppbyggingarsjóði Vesturlands og Sveitarfélaginu Stykkishólmi.